Tuesday, November 27, 2012

Dæmi úr fjölmiðlaumræðu

Hér er ætlunin að draga saman eitt og annað áhugavert sem finnst í fjölmiðlum og tengist efni námskeiðsins.
Byrjum á því að spyrja: hversu mikið skyldi hinn almenni Íslendingur vita um kennaramenntun? Ef hins sama væri spurt um kennarastarfið, man ég eftir að hafa séð mjög svo misvitrar athugasemdir í opinberri umræðu, athugasemdir á borð við að kennarar vinni minna en aðrir því kennslustundin sé aðeins 40 mínútur á meðan aðrar stéttir þurfi að vinna 60 mínútur fyrir tímakaupinu.

Hér er kannski vísbending um þetta. Hér er einstaklingur að hugleiða möguleikann á því að skrá sig í kennaranám. Í stað þess að skoða til dæmis heimasíðu Menntavísindasviðs er leitað í viskubrunn þjóðarinnar. Umræðan ristir ekki djúpt, eins og sjá má. Hve margir skyldu skrá sig í kennaranám af sannri köllun og djúpri þörf fyrir að láta gott af sér leiða fyrir æskulýð þessa lands? Hve margir skyldu vera á höttunum eftir þægilegri innivinnu með löngu sumarfríi? Þessu hef ég oft velt fyrir mér og ég er ekki viss um að mér myndi líka svarið.

Í fjölmiðlaumræðu á hvaða sviði sem er vill það oft brenna við að stjórnmálamenn eru spurðir álits og svara því sem þeir halda að kjósendur vilji heyra. Það á við um hinn skelegga fyrrverandi ráðherra af Suðurlandi, Björgvin G. Sigurðsson sem lét það út úr sér að fækkun nýskráninga í leikskólakennaranám gæfi tilefni til styttingar þess, korteri eftir að sá áfangi náðist að lengja námið í fimm ár. 
Hér er honum svarað fullum hálsi af formanni og varaformanni Kennarasambands Íslands. Málflutningur þeirra er kröftugur og bent er á fáránleika þess að ætla að hverfa frá svo til nýtekinni ákvörðun um lengingu náms leikskólakennara. Fróðlegt er að skoða athugasemdir við greinarnar. Athugasemdunum rignir yfir aumingja Björgvin en aðeins tveir nenna að ræða málflutning forsvarsmanna KÍ, þar af einn sem er persona non grata í umræðu um skólamál í 110 Reykjavík.
Vonandi er þetta til marks um annað og meira en óbeit almennings á misheppnuðum ráðherrum.

Afskipti stjórnmálamanna af menntamálum eru víðar bitbein. Skóla án aðgreiningar er hér lýst sem misheppnaðri pólitískri stefnu. Ekki er ég viss um að allir séu sammála því. Munurinn á þessari grein og þeirri sem áður er nefnd er fyrst og fremst sá að hér talar leikmaður. Stóra spurningin er hvor greinin er líklegri til að vinna óbreytta lesendur á sitt band en hér má hins vegar sjá starfandi grunnskólakennara sem deilir greininni á fésbókarsíðu sinni og fær áhugaverð viðbrögð:



Hér er gott að hafa í huga að almennt eru viðhorf íslenskra kennara til skóla án aðgreiningar ekki í lagi eins og sjá mátti í nýlegri starfsháttarannsókn. Málefni nemenda með sérþarfir eru eitt þeirra atriða sem ekki er fjallað nægilega um í kennaranámi hér á landi, sem kannski skýrir viðhorfin að einhverju leyti.

Raddir kennara geta haft áhrif á almenningsálitið heyrast að mínu mati ekki nógu víða. Á því eru þó nokkrar undantekningar. Hressandi umræðu um leikskólann má sjá hér þar sem áhyggjur ráðamanna af fækkun nema eftir lengingu eru afhjúpaðar sem hrein og klár níska. Sennilega rétt mat. Í athugasemd má einmitt sjá svar við spurningunni um afstöðu almennings til lengingar leikskólakennaranámsins.

Eldri færslan er endurbirting erindis frá hugmyndaþingi Samfylkingarinnar og er hressandi lesning en fellur tæpast undir fjölmiðlaumræðu. Ég get þó ekki á mér setið að benda á að þegar talað er um að í reglugerðum sé hestum ætlað meira pláss en leikskólabörnum, að hestar eru mun stærri.

Að öllu gamni slepptu er hér nokkuð skondin bloggfærsla þar sem framhaldsskólakennari ýjar að því að kollegar hans líti almennt niður á kennara á lægri skólastigum. Ég vona virkilega að honum skjátlist.

Ragnar er annar bloggari sem hefur verið áberandi, að minnsta kosti hef ég oft verið spurður hvort ég sé hann, vegna tengingarinnar við Norðlingaskóla. Hér er áhugaverð uppástunga, þótt fyrst þurfi að skrolla fram hjá fjasi um tölvubúnað. Kandídatsárið er í sjálfu sér ekki ný bóla í umræðunni en mótleikurinn sem Ragnar setur hér fram – að eldri kennarar hljóti símenntun hjá háskólunum í skiptum fyrir leiðsögn við nýliða – er óneitanlega spennandi og í takt við hugmyndir um hina langþráðu þriðju vídd.

Skrollum nú aðeins upp. Ég neita að nota orðið “skruna” eins og skýrast mun hér á eftir. Ragnar Þór gerir vaxtarmöguleika menntakerfisins á sviði upplýsingatækni að umræðuefni. Símenntun og starfsþróun kennara með aðstoð slíkrar tækni er að mínu mati vannýtt auðlind. Þó hafa sprottið nokkrar gorkúlur undanfarin misseri, til dæmis þetta, þetta, þetta og þetta svo bara séu tekin dæmi af fésbókinni. Eflaust eru dæmin miklu fleiri. Það er hins vegar umhugsunarefni að tæknin skuli ekki vera notuð í miklu meira mæli en nú er gert. Það er gömul tugga að íhaldssemi hrjái kennarastéttina og skólakerfið en kannski þó skýring að hluta til. Sjálfur hef ég þá reynslu í þessu sambandi að til séu öfl sem beinlínis standa í vegi fyrir því að íslenskir kennarar geti nýtt sér upplýsingatækni. Þegar þeir sem halda um budduna taka höndum saman við þá sem hafa athygli ráðherra á tyllidögum er ekki von á góðu. 


Það er vonandi að þeir sem ráða ferðinni í menntun kennara hér á landi þjáist ekki af framfarakvíða og tregðu en hér er reyndar vísbending um að svo sé ekki.